Nálgun eftirlitsaðila á fjármálamarkaði er röng, að mati Philip Booth, prófessors í tryggingafræðum og áhættustýringu við Cass Business School í London. Hann flytur í dag fyrirlestur sem ber heitið „Raunverulegar orsakir fjármálakreppunnar.“ Að fyrirlestrinum standa viðskiptafræðideild HÍ og Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt.

Hann nefnir sem dæmi að í Bretlandi sé komin sú krafa að viðskiptabankar eigi að halda áhættuvegnu eiginfjárhlutfalli yfir 10%. Í öðrum orðum sé nú gerð sú krafa að bankar geri breytingar sem leiði til þess að hægt sé að leysa þá upp án þess að skaði fjármálakerfið. Þetta eiginfjárhlutfall sé hins vegar svo hátt að þeir muni líklega aldrei fara á hausinn. Þetta sé hættulegt því það komi niður á hagkvæmni fjármálakerfisins og samkeppni milli banka ef þeir geta í raun ekki orðið gjaldþrota.

Þá segir hann að mikill misskilningur sé að skortur sé á eftirliti með bönkum. Árið 2011 hafi 14.200 nýjar reglugerðir verið settar um fjármálakerfi í heiminum öllum og að búast megi við því að reglugerðir vegna hinna svokölluðu Dodd-Frank bankalaga í bandaríkjunum verði um 30.000 síður að lengd. „Eftirlitsmenn fá borgað fyrir að skrifa reglur og enginn getur dregið í efa framleiðni þeirra. Þetta er mjög skaðlegt hagkvæmni í bankakerfinu, en ýtir einnig undir það að til verði mun flóknara bankakerfi því bankarnir munu reyna að komast á svig við reglurnar.“