Katalónska knattspyrnufélagið Barcelona hefur verið á allra vörum í sumar. Félagið hefur verið í miklum fjárhagsvandræðum á undanförnum árum og hlaðið upp skuldum bæði til skamms og langs tíma. Félagið hefur farið í efnahagslegar aðgerðir til að fá innspýtingu fjármagns, aðgerðir sem Joan Laporta, forseti félagsins, hefur kallað „economic levers“. Fjármagnið hefur farið í afborgun skulda en ekki síst í kaup á hverri stórstjörnunni á fætur annarri.

Jóhann Már Helgason, sérfræðingur um fjármál í fótbolta, telur að eitthvað hljóti að breytast í stefnu Barcelona í náinni framtíð, hvort sem sú breyting komi innan eða utan frá. „Ég held að í framtíðinni muni einhver stíga inn í og stoppa félagið á þeirri vegferð sem það er á, hvort sem það verði UEFA eða FIFA. Það er farið að kroppa svo mikið í framtíðartekjur félagsins og í þeim stofni sem Barcelona á að vera byggt upp á til framtíðar. Þetta er orðinn hættulegur leikur.“

Hann segir að núverandi skipulag Barcelona hljóti að vera tekið til endurskoðunar, en félagið er í eigu 140 þúsund hluthafa, eða „socis“. „Félagið á sig núna sjálft og það er ekki einhver einn eigandi. Ég held að það gæti breyst og að félagið endi í einkaeigu hjá einhverjum aðila sem getur tekið skuldirnar yfir.“

Jóhann bætir við að Barcelona hefði með réttu átt að selja verðmætustu leikmenn sína og þannig lækka launakostnaðinn sinn. Þá hefði liðið orðið lélegt í nokkur ár en jafnað sig á endanum enda miklir tekjumöguleikar í svo stóru vörumerki eins og Barcelona. „Laporta getur ekki hugsað sér veikt Barcelona. Félagið fer þá í ýmis klækjabrögð og veðsetur framtíðina til að ná árangri í nútíðinni.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.