Á síðustu tveimur árum hefur fasteignaverð hækkað meira en það gerði á sex ára tímabili þar á undan. Frá áramótum 2015 og til síðustu áramóta hefur vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 25%. Til samanburðar hækkaði vísitalan um 23% frá 2009 til 2015.

Ari Skúlason, hagfræðingur hjá Landsbankanum, segir að þar til síðasta haust  hafi verðhækkanir á húsnæði haldist nokkuð vel í hendur við kaupmáttaraukningu.

„Á þessu varð breyting í lok síðasta árs þá fór að skilja svolítið hressilega á milli," segir hann. „Þegar það gerist fer manni að verða pínulítið illt í maganum," segir hann. "Ef göngum út frá því að samningum á almenna vinnumarkaðnum verði framlengt í lok mánaðarins, en forsendunefnd ASÍ og SA eru að fara yfir þau mál, þá sjáum við ekki fram á eins mikla kaupmáttaraukningu á næstu misserum og verið hefur. Launahækkanirnar verða minni en verið hefur. Þar að auki spáum við aðeins meiri verðbólgu. Það er því að skilja á milli verðhækkana á húsnæðismarkaði og kaupmáttaraukningar, allavega tímabundið, og það er hættumerki."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .