Hollenski lífeyrissjóðurinn ABP hyggst selja allan eignarhlut sinn í jarðefnaeldsneytisfyrirtækjum sem nema alls meira en 15 milljörðum evra, eða um 2.250 milljörðum íslenskra króna. ABP, sem er lífeyrissjóður ríkisstarfsmanna í Hollandi, stefnir á að hafa losað meirihlutann af fjárfestingu sinni í olíu-, gas- og kolafyrirtækjum fyrir frá og með fyrsta fjórðungi 2023.

Um er að ræða eignarhluti í um 80 fyrirtækjum sem alls vega um 3% af 528 milljarða evra eignum lífeyrissjóðsins. Meðal fyrirtækja sem þessi stefna nær til er olíurisinn Royal Dutch Shell.

ABP, einn stærsti lífeyrissjóður heims segist ekki eiga von á að salan á eignarhlutum í jarðefnaeldsneytisfyrirtækjum, sem er sú stærsta sem nokkur lífeyrissjóður hefur tilkynnt um, muni hafa áhrif á langtímaávöxtun sjóðsins, að því er kemur fram í frétt Financial Times .

Sjá einnig: 138 félög á svörtum lista LIVE

Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LIVE) tilkynnti fyrr í mánuðinum um að sjóðurinn sé búinn að taka upp útilokunarlista, sem nær yfir fyrirtæki sem uppfylla ekki skilyrði sjóðsins um sjálfbærni og ábyrgar fjárfestingar. Af fyrirtækjunum 138 sem fóru á lista LIVE eru 88 fyrirtæki sem vinna kol, olíusand og olíuleir. LIVE hefur þegar selt eignir að virði rúmlega þriggja milljarða króna vegna þessa.