*

þriðjudagur, 20. október 2020
Erlent 27. ágúst 2020 12:50

Hættur eftir tilskipun Trump

Forstjóri TikTok er hættur eftir einungis þrjá mánuði í starfi vegna tilskipunar um sölu á starfsemi smáforritsins í Bandaríkjunum.

Ritstjórn
Kevin Mayer
Aðsend mynd

Kevin Mayer hefur látið af störfum sem forstjóri TikTok eftir einungis þriggja mánaða starf. Samfélagsmiðillinn vinsæli hefur legið undan ásökunum frá Donald Trump Bandaríkjaforseta um hann ógni þjóðaröryggi Bandaríkjanna. Vanessa Pappas, framkvæmdastjóri TikTok, mun gegna forstjórastöðunni tímabundið. Financial Times segir frá

Mayer tók ákvörðunina eftir að Trump hótaði að banna TikTok ef móðurfélag þess ByteDance myndi ekki selja bandarísku starfsemi smáforritsins innan 90 daga. Mayer tók við starfinu í maí eftir að hafa starfað sem yfirmaður streymisþjónustunnar Disney+.

„Á undanförnum vikum hafa orðið miklar breytingar í stjórnmálaumhverfinu. Ég hef þurft að hugleiða hvaða skipulagsbreytingar er þörf á og hvað þær þýða fyrir það alþjóðlega hlutverk sem ég samþykkti að taka við. Með þetta í huga, og samhliða því að við búumst við niðurstöðu í málinu mjög bráðlega, þá hef ég ákveðið að fara frá fyrirtækinu,“ segir í bréfi Mayer til starfsmanna. 

„Ég geri mér grein fyrir að hlutverkið sem ég tók að mér verður verulega breytt í kjölfar aðgerða bandarísku ríkisstjórnarinnar að þrýsta á sölu bandaríska rekstursins,“ bætti hann við. 

Ýmis fyrirtæki hafa sýnt áhuga á að kaupa hluta af Tiktok, þar á meðal Microsoft og nú síðast Oracle.

Stikkorð: TikTok Kevin Mayer