Í viðtali við Vísi.is í gær er haft eftir Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur, oddvita Framsóknarflokksins í Reykjavík, að hún vildi afturkalla lóð sem hefur verið úthlutuð til byggingar mosku í Reykjavík. Ummælin hafa vakið mikla athygli en nú síðast í gærkvöldi tilkynnti Hreiðar Eiríksson, sem skipar fimmta sæti listans, á Facebook síðu sinni að í ljósi ummæla oddvitans þá styðji hann ekki lengur framboð Framsóknarflokksins.

Í tilkynningunni segir meðal annars. „Þegar öllu er á botninn hvolft hafa Framsókn og flugvallarvinir lagt áherslu á að koma a.m.k. einum fulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur. Ég hef stutt það. Eftir atburði dagsins get ég hins vegar ekki gert það lengur. Það stríðir gegn samvisku minni að styðja skoðanir af því tagi sem kynntar hafa verið í dag. Ég hef rætt málin innan flokksins, og við oddvita framboðsins, og kynnt þeim sjónarmið mín.

Það er því með sorg í hjarta sem ég læt hér með vita af því að ég styð ekki lengur framboð Framsóknar og flugvallarvina til borgarstjórnar í Reykjavík,“ segir Hreiðar í tilkynningu sinni.

Ennfremur greinir Vísir.is frá því að ýmsir oddvitar annarra frambjóðenda hafa fordæmt ummæli Sveinbjargar og bent á mikilvægi þess að gæta trúfrelsis í borginni.