Lawerence Summers, fyrrverandi fjármálaráðherra Bandaríkjanna og efnahagsráðgjafi Barack Obama Bandaríkjaforseta, ætlar ekki að gefa kost á sér sem eftirmaður Ben Bernanke aðalseðlabankastjóra Bandaríkjanna. Hann var ásamt Janet Yellen aðstoðarseðlabankastjóra talinn manna líklegastur til að verða tilnefndur í stöðuna.

Japanska dagblaðið Nikkei fullyrti í síðustu viku að Obama væri á lokametrunum með tilnefningu Summers sem næsta seðlabankastjóra Bandaríkjanna. Forsetaembætti vísaði fullyrðingum blaðsins á bug um helgina. Ben Bernanke mun sitja í stól seðlabankastjóra fram í janúar á næsta ári.

Breska ríkisútvarpið ( BBC ) segir möguleika Janet Yellen á að verða tilnefnd sem eftirmaður Bernanke hafa aukist til muna eftir að Summers dró sig úr kapphlaupinu.