Verð á atvinnuhúsnæði er orðið hátt miðað við flestar hagstærðir að mati Seðlabanka Íslands á sama tíma og hægir á hagvexti hér á landi. „Allir mælikvarðarnir benda til þess að kaup, sem byggjast fyrst og fremst á væntingum um áframhaldandi almenna verðhækkun, séu um þessar mundir verulega áhættusöm,“ segir í ritinu Fjármálastöðugleiki sem Seðlabankinn gaf út í apríl.

Í síðustu útgáfu ritsins frá því í október hækkaði Seðlabankinn áhættumat sitt vegna atvinnuhúsnæðis um einn flokk, og er það nú í þriðja hæsta flokki af fjórum. Sér í lagi eru áhyggjur uppi af offramboði hótelherbergja á höfuðborgarsvæðinu. Það stefnir í að hótelherbergjum fjölgi um fjórðung á höfuðborgarsvæðinu á næstu þremur árum á meðan það stefnir í að ferðamönnum muni fækka, a.m.k. á þessu ári.

Verð komið yfir söguleg meðaltöl

Verð á atvinnuhúsnæði hækkaði um 18% að raunvirði á höfuðborgarsvæðinu í fyrra og að meðaltali um 15% á ári undanfarin fimm ár sé miðað við verðvísitölu atvinnuhúsnæðis. Seðlabankinn bendir á að að hluta til megi skýra verðhækkun síðustu ára með aðlögun frá efnahagskreppunni 2008-2010. Uppgangur hafi verið í hagkerfinu undanfarin ár sem hafi í för með sér aukna eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði. Nú nálgast verðið sem hlutfall af rekstrarafgangi hins vegar topp ársins 2008 og er 50% yfir meðaltali áranna 1997-2008. Verðþróunin er svipuð sem hlutfall af landsframleiðslu.

Þó hafi verð sem hlutfall af rekstrarafgangi hækkað meira en sem hlutfall af landsframleiðslu undanfarin ár. Sama þróun hafi átt sér stað í aðdraganda síðustu tveggja niðursveiflna í hagkerfinu. Verð sem hlutfall af byggingarkostnaði er 34% yfir langtímameðaltali sé miðað við vísitölu Hagstofunnar en 21% sé miðað við vísitölu byggingarkostnaðar atvinnuhúsnæðis.

Á sama tíma og verð hækkar hefur velta með atvinnuhúsnæðis dregist saman undanfarin tvö ár, um 10% árið 2017 og 5% í fyrra. Slíkt hefur oftar en ekki verið undanfari stöðnunar eða verðlækkunar.

Nánar er fjallað um málið í Fasteignamarkaðnum , fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .