Vegna gjörbreyttra efnahagsaðstæðna hér á landi hafa 7.000 erlendir ríkisborgarar þegar yfirgefið landið frá miðju síðustu ári samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar.

Að meðaltali búa 2,6 íbúar í hverri íbúð hér á landi sem samsvarar því að alls hafa 2.700 íbúðir sem áður voru í eigu eða leigu þessara erlendu ríkisborgara losnað síðan þá.

Greiningardeild Íslandsbanka bendir á það í Morgunkorni sínu að jafnvel þó gert sé ráð fyrir að erlendu ríkisborgararnir hafi búið fleiri saman en þetta meðaltal gefur til kynna  eða allt að 4 saman í íbúð samsvarar það því að 1.750 íbúðir sem áður voru heimkynni erlendu ríkisborgaranna hafi nú losnað.

Miðað við að árleg íbúðaþörf miðað við fólksfjölgun sé 1.800 íbúðir á ári er ljóst að um verulegan fjölda íbúða er að ræða.

Í Morgunkorninu er bent á að áhrifanna af brottflutningi erlendra ríkisborgara  gætir þegar á leigumarkaði. Framboð leiguíbúða hefur aukist mikið og leiguverð í kjölfarið lækkað. Í janúar voru rúmlega 800 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu auglýstar til lausar til leigu en í sama mánuði 2008 voru íbúðir lausar til leigu 200 talsins.

Að mati starfsmanna leigumiðlana hefur leiguverð lækkað um á bilinu 15-20% á undanförnum mánuðum. Haldi atvinnuástandið áfram að versna eins og útlit er fyrir að fleiri bætist í hóp þeirra sem flytja af landi brott sem mun enn auka á framboð húsnæðis, segir í Morgunkorninu.