„Samkvæmt fréttum er mögulegur samruni Vodafone og 365 á byrjunarstigi og þannig afar óljóst hvort hann nái í höfn," segir Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, í samtali við Viðskiptablaðið.

„Takist samningar þarf Samkeppniseftirlitið að skoða málið gaumgæfilega. Vodafone hefur áður reynt að kaupa hluta þessara eigna, þ.e. fjarskiptareksturinn sem þá voru í félaginu Tali. Þá hafnaði Samkeppniseftirlitið samrunanum. Vodafone er þess utan ráðandi í sjónvarpsdreifingu og með einkadreifisamning við ríkið um sjónvarpsrekstur. Samkeppnisleg áhrif þessa mögulega samruna eru þannig enn meiri en fyrri kaupa, sem var hafnað á sínum tíma.“​

Sævar Freyri Þráinsson, forstjóri 365 miðla, segir að Samkeppniseftirlitið eigi eftir að fá öll gögn um málið og eftir það geti stofnunin tekið afstöðu til hugsanlegra viðskipta. „Það var rétt verið að tilkynna þetta," segir hann.

Stefán Sigurðsson, forstjóri Fjarskipta hf. tekur í svipaðan streng. "Þetta er auðvitað markaður sem hefur verið á fullri ferð og er alltaf að breytast," segir hann. "Það er mikilvægt fyrir okkur ef við höfum áhuga að fara alla leið og kanna grundvöll og tala við Samkeppniseftirlitið. Það er bara partur af þessu.“