Derek Lovelock forstjóri Mosaic Fashion, sem stendur að baki tískuvörukeðjunum Oasis, Warehouse, Karen Millen og Principles, hefur tilkynnt KPMG endurskoðendum að hann hafi aðeins þriggja mánaða frest til þess að endurfjármagna fyrirtækið.

Samkomulag við Kaupþing þar að lútandi rennur út 31. maí. Skuldir fyrirtækjanna nema yfir 400 milljónum sterlingspunda.

Mosaic Fashion er sem kunnugt er að hluta til í eigu Baugs.

Í yfirlýsingu frá KPMG endurskoðendum segir að framtíð fyrirtækjasamsteypunnar velti á nokkrum þáttum, meðal annars á áframhaldandi samvinnu og fjárhagslegum stuðningi Kaupþings. Fram kemur að Mosaic og Kaupþing hafi verið í viðræðum síðan í október síðastliðnum og á þeim tíma hafi bankinn samþykkt frestun á greiðslum nokkrum sinnum.

Til þess að afla fjár hefur Mosaic Fashion auglýst Shoe Studio til sölu og auk þess fengið kauptilboð í Principles. Hins vegar segist fyrirtækið ekki hafa nein áform um að selja verslunarkeðjurnar Karen Millen, Oasis, Warehouse eða Coast.

Telegraph.co.uk skýrir frá þessu.