Byggingafyrirtækið Eykt ehf. hefur lýst yfir áhuga sínum á að reisa 2.000 manna byggð á landssvæði fyrir austan Hveragerði. Fyrirtækið hefur átt í viðræðum við forsvarsmenn bæjarins og er miðað við að ganga frá samningi fyrir áramót. Fyrirtækið hefur lýst yfir áhuga sínum á að ganga til samstarfs við bæinn um kaup og langtímauppbyggingu á 80 hektara landi fyrir austan Varmá sem rennur í gegnum Hveragerði. Bærinn er eigandi meirihluta landsins í dag.

Að sögn Orra Hlöðverssonar, bæjarstjóra Hveragerðis, hefur fyrirtækið áhuga á því að eiga svipað samstarf við Hveragerði eins og þeir áttu við Reykjavíkurborg um uppbyggingu svæðisins í Norðlingaholtinu í gegnum fyrirtækið Rauðhól. Þar hefur fyrirtækið tekið að sér að byggja um leið og það tekur þátt í deiliskipulagi og yfirbragð byggðarinnar. Þar hefur Eykt séð um uppbyggingu gatnakerfis og byggt íbúðir ásamt því að sjá um útdeilingu þeirra. "Við vonumst til að geta skilað þessu frá okkur fyrir áramót þannig að bæjarstjórn geti tekið afstöðu," sagði Orri Hlöðversson. "Þeirra hugmyndir ganga út á tvöföldun á bæjarfélaginu á næstu 15 árum."

Eykt ehf. er meðal stærstu verktakafyrirtækja landsins með um 200 starfsmenn og hefur yfir að ráða öllum búnaði sem þarf til undirbúnings og framkvæmdar meiriháttar byggingarverkefna. Fyrirtækið var stofnað árið 1986 og er í dag í eigu Péturs Guðmundssonar.