Sveitarstjórnarmenn í Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki hafa áhyggjur af því að ESB-málið geti haft áhrif á fylgi flokkanna í kosningunum í lok maí. Í Morgunblaðinu í dag segir að nokkrir í hópi sveitarstjórnarmanna og oddvita stjórnarflokkanna í sveitarstjórnum hafi látið í ljós mikla óánægju með það hvernig stjórnarflokkarnir hafa haldið á málinu eftir að skýrsla Hagfræðistofnunar um ESB-viðræðurnar kom fram.

Ómar Stefánsson, oddviti framsóknarmanna í Kópavogi, hefur t.d. lagt fram tillögu í bæjarstjórn Kópavogs þar sem skorað er á ríkisstjórnina að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald ESB-viðræðna. Þá segir í blaðinu að í viðtölum við sveitarstjórnarmenn sem hlynntir eru þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við ESB heyrist að þeir vonast til að óánægjan með málsmeðferð ríkisstjórnarinnar verði þeim lyftistöng í kosningabaráttunni.