Ekki er hægt að útiloka að offramboð verði á nýbyggðum íbúðum að mati nýrrar Hagsjá Landsbanka Íslands . Bendir bankinn á að langur vegur sé á milli kaupgetu þeirra sem eiga við erfiðleika að etja í húsnæðismálum og kaupverðs nýrra íbúða.

Vísar Hagsjáin þar í að verið er að byggja mikið af stórum dýrum íbúðum nú en á sama tíma er mikil krafa um það í aðdraganda kjarasamninga að byggja fyrir efnaminna fólk. Spyr bankinn þá hver eigi að kaupa allt það húsnæði sem nú sé á leið inn á markað, og vísað í talningu Samtaka iðnaðarins um að 4.900 íbúðir séu nú í byggingu á höfuðborgarsvæðinu.

Þar er reiknað með að lokið verði að byggja samtals um 4.300 íbúðir á árunum 2018 og 2019, en á fyrstu 10 mánuðum þessa árs var meðalstærð íbúðanna um 103 fermetrar og meðalverð á fermetra um 521 þúsund krónur. Þar með hafi meðalverð á íbúð verið um 54 milljónir króna, sem bankinn bendir á að sé mun hærri upphæð en margir ráði við.

Þörfin sögð frá 3.200 til 15.000 í ár og næsta ár

Í þessu samhengi tekur bankinn saman vangaveltur um uppsafnaða þörf á húsnæðismarkaði höfuðborgarsvæðisins, Íbúðalánasjóður sagði frá því í apríl að annars vegar kallaði uppsafnaður skortur og fjölgun íbúða sem leigt er út í skammtímaleigu, þ.e. Airbnb og þess háttar, nemi rúmum 9 þúsund íbúðum. Til við bótórar kallaði fólksfjölgun og breyt aldursdreifing á tæplega 6 þúsund íbúðir á árunum 2018 og 2019, samtals 15 þúsund íbúðir.

Hins vegar sagði í greiningu Capacent að byggja þurfi 3.200 til 4.000 íbúðir í Reykjavík á árunum 2018 og 2019, svo þarna munar töluvert miklu, og því veltir bankinn upp hvort hugsanlega verði offramboð af íbúðum, sérstaklega þeim stærri og dýrari.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun hefur fermetraverð í nýjum íbúðum hækkað mikið á síðustu mánuðum, en vísitala ásetts verðs hafði hækkað um 7,2% meðan vísitala íbúðaverðs hefur hækkað um 4,1%.

Landsbankinn tekur fram að inn í þessar vangaveltur muni skipta miklu máli hvort sú þróun verði hér á landi líkt og er komin lengra á veg í Norðurlöndunum að færri búi í hverri íbúð, en á Íslandi er meðaltalið 2,45 manns á íbúð og í Reykjavík sé það 2,36. Á sama tíma séu tölurnar 1,9 til 2,2 á Norðurlöndunum.