Leiðtogar þeirra evruríkja sem eiga í mestum fjárhagsvandræðum eru áhyggjufullir yfir áformum Evrópska seðlabankans um að hækka stýrivexti bankans. Fjármálaráðherra Grikklands lýsti yfir áhyggjum vegna þessa og telja margir hagfræðingar að hækkunin sé ekki tímabær.

Fastlega er gert ráð fyrir vaxtahækkun við næstu stýrivaxtaákvörðun bankans. Þá er talið að bankinn hefji ferli þar sem bankastofanir verða vandar af svo til ótakmörkuðu aðgengi að lausafé. Financial Times fjallar um málið í dag. Ef bankinn ákveður að hækka vexti, líkt og forsvarsmenn hans hafa gefið í skyn, tekur evrópski Seðlabankinn fyrstur skref í hertri peningastefnu, á undan Englandsbanka og Seðlabanka Bandaríkjanna.

Lausn á skuldavanda evruríkja virðist ekki í sjónmáli. Niðurstöður álagsprófa á írska banka sem birtar voru fyrir helgi eru taldar undirstrika það. Fjárþörf bankanna er metin á um 24 milljarða evra, samkvæmt niðurstöðum álagsprófanna.

Vaxtaákvörðun evrópska bankans verður kynnt næsta fimmtudag. Stýrivextir eru nú 1% og talið að þeir verði hækkaðir um 0,25 prósentur. Verðbólga á evrusvæðinu í mars mældist 2,6% og hækkaði meira frá fyrri mánuði en búist var við.