Morten Lund, stærsti hluthafinn í Nyhedavisen, hefur boðað að síðdegis verði birt tilkynning varðandi áform blaðsins, en fjárhagserfiðleikar þess hafa þrengt verulega að rekstrinum undanfarna mánuði. Danski fréttavefurinn epn.dk fullyrðir að íslensku eigendur blaðsins, sem stofnað var af Baugi á sínum tíma og sótti fyrirmynd til Fréttablaðsins, hafi tapað ríflega 700 milljónum danskra króna á rekstrinum frá upphafi, en miðað við núverandi gengi myndi það nema hátt í 12 milljörðum íslenskra króna.

„Við sendum frá okkur tilkynningu seinna í daga. Ég vil ekki segja neitt meira en það,” sagði Lund í tilkynningu til fréttavefsins. Frestur blaðsins til að skila inn ársreikningi sínum fyrir árið 2007 til ársreikningaskrár þar í landi er á enda runninn. Gerir epn.dk því skóna að eigendur blaðsins geri nú dauðaleit að nýjum fjárfestum til að styrkja rekstrarhorfur þess og tryggja áframhaldandi útkomu þess.

Leggja ekki meira til blaðsins

Fjármálastsjóri Nyhedsavisens, Lars Lindstrøm, sagði í samtali við dagblaðið Børsen í dag að búið væri að ganga frá samkomulagi á milli Nyhedavisen og Stoða Invest, fjárfestingafélagsins sem keypti fjölmiðla- og fjarskiptafélög Baugs á vordögum og á 49% af útgáfunni. Hljóðaði það upp á að Stoðir myndi breyta 4 milljarða skuldabréfi sem Nyhedsavisen á að greiða von bráðar gegn því að nýir fjárfestar komi að blaðinu. Sagði hann að Íslendingarnir myndu ekki leggja meiri fjármuni til fyrirtækisins.