Íslenskir áfengisinnflytjendur eiga milljónir inni hjá íslenska ríkinu og hefur gengið afar illa að fá þetta fé greitt, að sögn Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda. Seinagangur hjá Tollstjóraembættinu veldur fyrirtækjum jafnframt tjóni vegna kostnaðar við að geyma áfengi, sem verður að farga undir eftirliti Tollstjóra.

„Í stuttu máli snýst þetta um að þegar innflutt áfengi er tollafgreitt er greitt af því áfengisgjald. Svo kemur fyrir að umbúðir skemmast, eða varan rennur út, svo dæmi séu tekin. Þá á innflytjandi rétt á að fá gjaldið endurgreitt en fyrst verður að farga áfenginu í viðurvist fulltrúa Tollstjóra. Það hefur reynst þrautin þyngri að fá slíkan fulltrúa. Því er töluvert magn af ónýtu áfengi sem bíður förgunar og á meðan fæst gjaldið ekki endurgreitt,“ segir Ólafur.

Hann segir að ofan á áfengisgjald, sem fæst ekki endurgreitt úr ríkissjóði vegna seinagangs tollsins bætist svo kostnaður innflytjandans við að geyma áfengi sem hann getur ekki selt. Hann geti hlaupið á milljónum. „Tollurinn þarf einnig að vera viðstaddur förgun á áfengi sem er geymt á frísvæði og hefur ekki verið tollafgreitt. Af því hefur ekki verið reiknað áfengisgjald, þannig að þar er það aðallega geymslukostnaðurinn sem fellur á fyrirtækin af því að opinber stofnun sinnir ekki hlutverki sínu.“

Ólafur segir að Tollstjóraembættið beri við manneklu þegar óskað er skýringa á þessum töfum. „Ég þekki dæmi þess að fyrirtæki hafi beðið í fjögur ár eftir að geta fargað áfengi. Þetta er ótækt.“