Umhverfisstofnun hafa borist rúmlega 130 kvartanir síðan kveikt var aftur á ofni kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík eftir hlé. Þetta kemur fram í svari Umhverfisstofnunar við fyrirspurn Vísis .

Í samtali við Vísi segir Björn Þorláksson upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar að starfsmenn stofnunarinnar bíði nú eftir niðurstöðu greininga á skammtímasýnum. Hann segir að ofninn sé kominn í fullt álag en Umhverfisstofnun fylgist vel með lyktarmengun og hvort ofninn haldist stöðugur. Hann segir einnig að hagstæð vindátt eigi líklega þátt í því að Umhverfisstofnun hafi aðeins borist 3-4 kvartanir á síðustu tveimur dögum og að langflestar kvartanir snúi að lyktarmengun.

Kísilofn United Silicon í Helguvík var endurræstur á mánudag í síðustu viku eftir að samþykki fékkst frá Umhverfisstofnun um að ræsa mætti ofninn aftur eftir tæpa mánaðarstöðvun.