Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála (ÚUA) hefur lagt fyrir Skipulagsstofnun að taka til afgreiðslu „án frekari tafa“ fyrirliggjandi tillögu Arnarlax um matsáætlun og frummatsskýrslu vegna ætlaðrar framleiðsluaukningar á laxi í sjókvíum í Arnarfirði. Stofnunin hefur ekkert aðhafst í máli félagsins í rúmlega 20 mánuði en að mati nefndarinnar fór stofnunin út fyrir valdmörk sín með aðfinnsluverðum hætti.

Frá 2016 hefur Arnarlax stundað sjókvíaeldi í Arnarfirði fyrir að hámarki 10 þúsund tonna lífmassa. Í árslok 2017 tilkynnti félagið að það hygðist auka framleiðsluna um nærri helming og um mitt ár 2018 lá fyrir það mat Skipulagsstofnunar að sú aukning þyrfti að fara í umhverfismat.

Þann 19. júní 2019 sendi Arnarlax tillögu að matsáætlun sem kynnt hefði verið vikurnar tvær á undan. Í byrjun júlí óskaði félagið eftir því að ákvörðun stofnunarinnar lægi fyrir eigi seinna en 17. júlí sama ár en þann 19. júlí 2019 áttu að taka gildi breytingar á lögum um fiskeldi. Umsóknir sem lægju fyrir það tímamark skyldi meðhöndla samkvæmt eldra fyrirkomulagi en síðar fram komnar umsóknir féllu í það síðara.

Ekkert svar barst frá Skipulagsstofnun og sendi Arnarlax frummatsskýrslu til stofnunarinnar degi áður en nýju lögin tóku gildi. Í september 2019 sendi stofnunin hagaðilum bréf þar sem túlkun hennar á lagabreytingunum var útlistuð. Kom þar meðal annars fram að stofnunin myndi ekkert aðhafast í málum hafi frummatsskýrslu ekki verið skilað fyrir gildistöku laganna.

Síðan leið og beið og þegar leið á haustið sendi Arnarlax bréf til stofnunarinnar og spurði frétta af frummatsskýrslunni. Í svarbréfi stofnunarinnar sagði að þar sem stofnunin hefði ekki tekið afstöðu til matsáætlunardraganna lægi ekki fyrir nein matsáætlun. Af því leiddi að engin frummatsskýrsla væri fyrir hendi. Óraunhæft hefði verið fyrir stofnunina að taka afstöðu til bréfsins frá 19. júní vegna sumarleyfa starfsfólks. Ekkert yrði því aðhafst í málinu.

Ræni aðila réttinum til kæru

Í kæru Arnarlax til ÚUA sagði að stofnunin hefði ekki andmælt matsáætluninni innan lögboðins frests og að til að stofnuninni gæti verið stætt á því að aðhafast ekkert þyrfti hún að taka formlega ákvörðun um það. Það hefði ekki verið gert og félagið væri því í hálfgerðu limbói meðan það væri vanrækt að veita formlegt svar.

„Skipulagsstofnun geti ekki haft af framkvæmdaraðila réttinn til að láta reyna á réttmæti ákvörðunar stofnunarinnar með því að hætta að sinna máli og hafna því að taka ákvörðun. Með því misnoti stofnunin aðstöðu sína,“ sagði í málsrökum Arnarlax.

Í andmælum Skipulagsstofnunar var bent á það að breytingarnar á lögum um fiskeldi hefðu snertiflöt við meðferð mála samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Stofnunin hefði ráðfært sig við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og þar verið staðfestur sá skilningur að mál sem ekki hefðu náð frummatsskýrslustigi við lagaskilin skyldu falla dauð niður. Það hefði ekki verið uppfyllt í máli Arnarlax.

Aðfinnsluvert aðgerðaleysi án lagastoðar

Í niðurstöðu ÚUA sagði í upphafi að málinu yrði ekki vísað frá nefndinni á þeim grunni að engin kæranleg ákvörðun hefði verið tekin. Arnarlaxi hefði verið rétt að kæra málið til nefndarinnar á þeim grunni að dráttur á málinu væri úr hófi.

„Í máli þessu hefur Skipulagsstofnun hvorki synjað né fallist á tillögu kæranda um matsáætlun með eða án athugasemda. Hefur stofnunin ekki heldur hafnað því að taka frummatsskýrslu hans til meðferðar þar sem hún uppfylli ekki lagaskilyrði. […] Er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að stofnunin hyggist ekki afgreiða matsáætlun og frummatsskýrslu kæranda. Greinir aðila máls á um lögmæti framangreindrar afstöðu Skipulagsstofnunar og réttaráhrif hennar,“ segir í niðurstöðukafla.

Nefndin telur enn fremur að með fyrrgreindu bréfi Skipulagsstofnunar frá september 2019, þar sem aðilum var tilkynnt um að ákveðin mál myndu ekki sæta frekari meðferð, hafi stofnunin farið út fyrir heimildir sínar samkvæmt lögum. „[V]erður ekki annað séð en að með umburðarbréfi sínu og lagatúlkun hafi stofnunin farið út fyrir valdmörk sín. Átti sú afgreiðsla sér enga stoð í lögum [um mat á umhverfsáhrifum] og er aðfinnsluverð,“ segir nefndin.

„Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Fyrir liggur sú ákvörðun Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð framleiðsluaukning í sjókvíum kæranda í Arnarfirði sé háð mati á umhverfisáhrifum og skilaði framkvæmdaraðili stofnuninni tillögu að matsáætlun 19. júní 2019 og frummatsskýrslu 18. júlí s.á.

Bera gögn málsins það með sér að þegar hinn 5. júlí s.á hafi legið fyrir að Skipulagsstofnun myndi ekki ljúka afgreiðslu erindanna innan tilskilins tímafrests, svo sem kærandi mun hafa verið upplýstur um í símtali við starfsmann stofnunarinnar þann dag. Liggur og fyrir að Skipulagsstofnun hyggst ekki afgreiða áðurgreind erindi. Að framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að óhæfilegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu erinda kæranda, þær tafir eigi sér ekki lagastoð og séu því ekki afsakanlegar,“ segir í úrskurðinum.

Stofnunin þarf því að taka málið til afgreiðslu án frekari tafa.