Sigurður Ingibergur Björnsson, framkvæmdastjóri Klíníkurinnar Ármúla, fagnar hugmyndum um að Sjúkratryggingum Íslands verði falið að semja við alla veitendur heilbrigðisþjónustu sem uppfylla kröfur um gæði og öryggi. Hann segir hið opinbera ekki anna þjónustueftirspurn og að langur biðtími eftir aðgerðum skapi eftirspurn eftir þjónustu Klíníkurinnar.

„Það hefur ekki verið inni á borðinu hjá Sjúkratryggingum Íslands að semja við aðra en opinber sjúkrahús og það fyrirkomulag hefur leitt til þess að fólk er ekki að fá þær aðgerðir sem það þarf. Síðast þegar við kíktum á biðlista eftir liðskiptaaðgerðum voru að mig minnir um 1.600 einstaklingar að bíða og það er örugglega enn stærri hópur núna. Biðtíminn skapar mikla eftirspurn eftir þessum aðgerðum og það er í raun þess vegna sem Klíníkin verður til. Hún fer af stað með að bjóða upp á þessar aðgerðir vegna þess að opinbera kerfið er ekki að mæta þörfinni," segir Sigurður.

Í því samhengi er gjarnan talað um nokkurs konar tvöfalt kerfi og jafnvel vísað í að hinir efnameiri geti fengið þjónustu strax á meðan aðrir þurfi að bíða. Sigurður segir það misskilning að það sé einkum efnameira fólk sem sæki þjónustu Klíníkurinnar.

„Stór hluti þeirra sem koma hingað, til dæmis í liðskiptaaðgerð, er fólk sem hefur einfaldlega ekki efni á því að bíða eftir aðgerð. Þegar fólk sér fram á að þurfa að bíða í nokkur ár eftir því að fá bót meina sinna, þannig að það verði vinnufært, þá leitar það til okkar. Reikningsdæmið gengur upp, því það er dýrara fyrir fólk að bíða en að kaupa þjónustuna sjálf, en það að þau neyðist til þess er auðvitað ekkert sanngjarnt. Okkur er sagt að þetta heilbrigðiskerfi eigi að vera svo til ókeypis fyrir alla en svo fær fólk bara ekki þjónustuna, og biðin er ofboðslega dýr þegar þú gerir allt dæmið upp."

Þessu tengt tekur hann dæmi um 55 ára smið sem er með ónýtt hné og óvinnufær vegna þess. „Ef hann sér fram á að vera utan vinumarkaðar í tvö ár eða lengur, þá er hann kominn á viðkvæman aldur og á þessum tveimur árum verður hann fyrir tekjutapi og missir tengsl. Á sama tíma situr hann heima, bryðjandi verkjalyf og nær kannski ekki að hreyfa sig og fitnar. Líkurnar á að hann komist aftur á sama stað út á vinnumarkaðinn eru ekki miklar. Þegar fólk stendur frammi fyrir þessu þá er spurningin bara hvort það sé hagkvæmara að greiða fyrir aðgerðina sjálfur eða að láta sig hafa þessa bið."

Nánar er rætt við Sigurð í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .