Breski bílaframleiðandinn Aston Martin hagnaðist í fyrsta sinn í sex ár, þetta kemur fram á fréttasíðu BBC.

Hagnaður félagsins fyrir skatta nam alls 5,9 milljónum punda, en hann var drifinn áfram af sölu á DB11 bílnum sem kom út í lok síðasta árs.

Tekjur Aston Martin tvöfölduðust á fjórðungnum og námu alls um 188 milljónum punda.

Framleiðandinn var áður í eigu Ford, en árið 2007 seldi bandaríski framleiðandinn fyrirtækið til fjárfesta frá Ítalíu og Kúveit.

Þó svo að bílarnir séu mikið stöðutákn og eigi sér langa og ríka sögu, hefur félagið orðið gjaldþrota í sjö skipti.

Á síðasta ári seldi fyrirtækið 3687 bíla, en stefnt er að því að auka sölu um 30% á árinu.