Náttúruhamfarnar á Siglufirði eru tveir aðskildir tjónaatburðir að sögn Huldu Ragnheiðar Árnadóttur, framkvæmdastjóra Viðlagatryggingar Íslands. Annars vegar er um að ræða flóðið í Hvanneyrará, og hins vegar aurskriður. Hún segir bótaskylduna vera alveg skýra varðandi flóðið, en ekki hefur verið lagt nægilegt mat á aurskriðurnar til að hægt sé að fullyrða að tjón af þeirra völdum sé bótaskylt hjá Viðlagatryggingu.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Hulda að búist sé við nokkrum tugum tjónatilkynninga vegna flóðsins. Í gær höfðu borist um tíu tilkynningar. Hulda segir að aðallega sé um að ræða tjón á íbúðarhúsum, en auk íbúðarhúsnæðis hafi meðal annars prentsmiðja orðið fyrir miklum skemmdum.

Aðallega er um að ræða innbússkemmdir. Hulda segir ekki vera hægt að leggja mat á fjárhæð tjóna að svo stöddu, en matsmenn munu byrja að meta einstök tjón eftir helgi.

Þeir sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni geta tilkynnt það á vefsíðu Viðlagatryggingar .