Íslensku lífeyrissjóðirnir hafa „ekki nærri því“ nýtt allar þær heimildir sem þeir hafa til erlendra fjárfestinga í gegnum sérstaka undanþágu frá gjaldeyrishöftum. Þetta sagði Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, í samtali við Viðskiptablaðið að loknum blaðamannafundi þar sem næstu skref til losunar fjármagnshafta voru kynnt á þriðjudag.

Seðlabankinn veitti lífeyrissjóðunum 40 milljarða króna heimild til erlendra fjárfestinga í byrjun júlí og hafa þeir til loka september til að nýta sér hana. Bætist sú heimild við aðra 40 milljarða undanþágu sem sjóðunum hafði verið veitt í skrefum frá byrjun síðasta árs. Líkt og fram kom í síðasta Viðskiptablaði eru sjóðirnir allsráðandi á íslenskum hlutabréfamarkaði og eiga a.m.k. 40 prósent íslensks hlutafjár að verðmæti 365 milljarða króna. Þrátt fyrir það virðast þeir ætla að flýta sér hægt með fjármuni úr landi.

„Reynslan af því að hafa rýmkað mjög verulega erlendar fjárfestingaheimildir lífeyrissjóðanna er sú að þeir hlaupa ekki til og fullnýta heimildirnar, heldur fara sér hægt og virðast meta stöðuna þannig á erlendum mörkuðum að þar séu dálítið víðsjárverðir tímar. Eftir síðustu rýmkun á reglum um þessi efni höfum við ekki ástæðu til að ætla að lífeyrissjóðskerfið í heildina séð sé mikið að reka sig á fjárhæðatakmarkið sem við höfum nú þegar sett. Það er í sjálfu sér athyglisvert,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við Viðskiptablaðið eftir áðurnefndan blaðamannafund.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .