Töluverðar breytingar hafa orðið á fjármálakerfinu bæði hér heima og erlendis á síðustu árum. Að sögn Marinós Arnar Tryggvasonar, forstjóra Kviku, er viðskiptalíkan stóru bankanna ekki sniðið að hagkerfinu eins og það er í dag.

„Viðskiptalíkan stóru bankanna er erft frá því að þeir höfðu væntingar um að þjónusta milljónir manna út um alla Evrópu. Þeir hafa í stórum dráttum allir brugðist eins við og reynt að lækka kostnað með því að fækka útibúum auk þess að fjárfesta í tækni. Það er góðra gjalda vert en breytir því ekki að þeir eru mjög stórir miðað við umsvif og þeim hefur heilt yfir ekki tekist á undanförnum árum að skila viðunandi arðsemi.

Mögulega er þetta einföldun en viðskiptalíkan stóru bankanna er ekki hannað fyrir hagkerfið eins og það er í dag heldur er það afleiðing af viðbrögðum við viðskiptalíkani sem búið var til fyrir 10-20 árum og aðlagað að því. Þar sem þessi vandamál eru ekki til staðar hjá okkur er raunverulegt tækifæri til þess að þróa viðskiptalíkan sem passar fyrir hagkerfið eins og það er í dag og væntingar um hvernig það muni þróast á næstu 5-10 árum.

Í grunninn hafa fjármálafyrirtæki, hvort sem þau eru lítil eða stór, engan tilverugrundvöll ein og sér heldur eru þau til af einhverri ástæðu. Í stórum dráttum er ástæðan að miðla fé, hvort sem það er í tíma eða á milli aðila. Það er bara þetta tvíþætta hlutverk og ekkert annað sem fjármálafyrirtæki hafa. Ef þau geta ekki rækt þetta hlutverk þá eiga þau ekki tilverurétt.

Ef við veltum fyrir okkur hvernig hagkerfið er samsett þá höfum við sem samfélag ákveðið, í stórum dráttum, að fela lífeyrissjóðum að geyma sparifé landsmanna. Eins og þetta var fyrir um 15 árum þá voru efnahagsreikningar bankakerfisins töluvert stærri en efnahagsreikningar lífeyriskerfisins. Í dag eru þeir hins vegar stærri hjá lífeyriskerfinu heldur en hjá bönkunum. Með smá einföldun getum við sagt að stærðarhagkvæmnin af því að eiga efnahagsreikning sé ekki lengur hjá bönkunum heldur hjá lífeyrisskerfinu. Birtingarmyndin er sú að lífeyrissjóðir eru í frekara mæli farnir að lána beint með sjóðsfélagalánum og veðlánum til fyrirtækja þar sem þeir eru orðnir það stórir að þeir ættu að geta haft meiri stærðarhagkvæmni en bankakerfið.

Hlutverk fjármálakerfisins að miðla fé frá eigendum þess til þeirra sem þurfa það verður held ég miklu frekar að nýta innviði sína til þess að miðla fénu frekar en að nota efnahagsreikninginn. Þannig að ég hef áhuga á að byggja upp banka sem er hannaður fyrir hagkerfið eins og það er núna. Hann verður minni heldur en bankar voru og leggur frekar áherslu á sterka innviði til þess að geta komið fé frá þeim sem eiga það til þeirra sem þurfa það, því það hlutverk er til staðar ennþá og verður  áfram.“

Marinó segir líklegt að vöxtur Kviku muni halda áfram en hve mikill hann verði nákvæmlega sé erfiðara að segja til um. „Þá getum við sagt að þessi grófa hugmynd um ákjósanlegan banka að hann sé stærri en við erum í dag. Er hann tvö- þre- eða fjórfalt stærri? Ég veit það ekki en hann er líklega stærri en Kvika í dag. Það er þetta einstaka tækifæri sem við erum með hérna í höndunum að vera með lítið félag með innviði sem banka og getum haldið áfram að þróa viðskiptalíkanið til þess að það henti hagkerfinu eins og það er samsett núna en ekki eins og það var fyrir 15-20 árum. Það felast mörg tækifæri í að þróa áfram fjármálafyrirtæki sem er hannað fyrir umhverfið í dag og út frá væntingum um hvernig það muni þróast.

Ég held þó  að það sé engin ein hugmynd að ákjósanlegum banka. Það getur vel verið að það sé líka pláss fyrir stóran banka. En segjum að einhver af þeim myndi ákveða að minnka mjög mikið á meðan við ætlum að stækka. Munurinn á því þegar við stækkum er að þá nýtum við innviði okkar betur og fáum stærðarhagkvæmni í auknum viðskiptum á innviðina okkar á meðan ef stóru bankarnir ætla að minnka felur það líklega í sér einskiptiskostnað og áskoranir í breytingunum. Það er því líklega kostnaðarsöm aðgerð að minnka, að minnsta kosti til skemmri tíma, og felur í sér áskoranir við að halda uppi arðsemi á meðan fyrir okkur ætti stækkun að geta leitt til betri arðsemi bæði til skemmri og lengri tíma.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .