Ekki verður almennt hægt að flytja hina svokölluðu tilgreinda séreign milli lífeyrissjóða. Um er að ræða nýjan valkost sem kom til með hækkandi iðgjöldum í lífeyrissjóði sem tók gildi nú um mánaðamótinlíkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um . Að minnsta kosti tveir stórir lífeyrissjóðir hafa ákveðið að hin nýja tilgreinda séreign verði ekki álitin flytjanleg milli sjóða, líkt og á við um hefðbundinn lífeyrissparnað, að því er Morgunblaðið greinir frá.

Segir Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis að gjaldið verði að greiðast til aðildarsjóðs viðkomandi starfsmanns, því um sé að ræða skylduiðgjald byggt á kjarasamningum SA og ASÍ. Lífeyrissjóðirnir virðast þó ætla að taka ólíka stefnu í þessum málum.

Verður tilgreind séreign sem lögð er í Frjálsa lífeyrissjóðinn flytjanleg líkt og önnur séreign að því er Arnaldur Loftsson, framkvæmdastjóri sjóðsins segir. „Mér er umhugað um að fólk geti ákveðið sjálft hvernig það fer með sinn sparnað,“ segir Arnaldur. „Ef sjóðfélagar eru óánægðir með t.d. ávöxtun eða þjónustu vil ég að þeir geti flutt séreignasparnaðinn sinn auðveldlega.“