Starfsmenn sýslumannsembættisins í Reykjavík hafa nú loks farið yfir öll skjöl sem söfnuðust upp hjá embættinu í tveggja mánaða verkfalli lögfræðinga. Fréttastofa RÚV greinir frá þessu.

Rúmlega tíu þúsund skjöl biðu þinglýsingar þegar lögfræðingar mættu aftur til vinnu þann 15. júní síðastliðinn eftir að lög höfðu verið sett á verkfallið.

„Þau skjöl sem lögð voru inn til þinglýsingar á meðan verkfalli stóð hafa nánast öll verið yfirfarin og við erum byrjuð að vinna þau skjöl sem lögð voru inn til þinglýsingar eftir að verkfall leystist,“ segir Ásta Valdimarsdóttir, lögfræðingur hjá embættinu, í samtali við RÚV.

Hún segir að unnið hafi verið um helgar og nánast fram á hvert kvöld. „Þetta gengur bara nokkuð vel. Ef þú leggur inn skjal í dag er biðin um fimm vikur. Við erum sem að þinglýsa í dag skjölum sem voru lögð inn fyrir fimm vikum.“