Í kjölfar þess að bónuskerfi LBI, eignarhaldsfélags gamla Landsbankans, varð virkt undir lok síðastliðins árs, hafa fyrirframgreiðslur Landsbankans til LBI tryggt fjórum stjórnendum þess allt að 370 milljónir í bónusa.

Er um að ræða fimm fyrirframgreiðslur sem samanlagt gera um 110 milljarða króna, á síðustu níu mánuðum, sú síðasta fyrir um tveimur vikum, að því að Fréttablaðið greinir frá.

Kolbeinn og Ársæll meðal bónusþiggjenda

Á meðal stjórnendanna fjögurra eru íslensku lögmennirnir Kolbeinn Árnason, og Ársæll Hafsteinsson, sem er framkvæmdastjóri félagsins. Kolbeinn er stjórnarmaður í LBI en hann er fyrrverandi framkvæmdastjóri SFS.

Ársæll hefur starfað fyrir skilanefnd og slitastjórn gamla Landsbankans allt frá hruninu árið 2008, en í fréttinni er vísað í tekjublað Frjálsar verslunar sem sýnir hann með rúmlega 23 milljónir króna í mánaðarlegar tekjur á síðasta ári.

Samkvæmt kaupaukakerfi LBI þá fá stjórnendur félagsins til að mynda tiltekinn hluta af fyrirframgreiðslum Landsbankans inn á skuld sína við LBI, en þær greiðslur eru þó einungis lítill hluti af bónuskerfinu.

Því eru þessar tilteknu bónusgreiðslur tilkomnar vegna þeirrar ákvörðunar Landsbankans um að hraða endurgreiðslu á skuld sinni við LBI, en gangi ákveðnar forsendur eftir um endurgreiðslurnar gæti bónuspotturinn í heild orðið um tveir milljarðar. Er það jafngildi um 1% af heildareignum félagsins þegar bónuskerfinu var komið á fyrir tæplega einu ári.