Beinir starfsmenn þrotabús Glitnis hafa fengið rúma þrjá milljarða greidda í laun frá ársbyrjun 2009. Þetta kom fram í rekstraryfirliti slitastjórnarinnar sem kynnt var kröfuhöfum á fundi síðastliðinn fimmtudag. Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag þar sem meðal annars segir að kostnaður hafi aukist um 35 prósent á milli ára, aðallega vegna aukins kostnaðar við gerð nauðasamnings. Stærsti kostnaðarliðurinn er vegna erlendrar ráðgjafar.

Laun og launatengd gjöld hjá Glitni voru 298 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum þessa árs. Aðkeypt lögfræðiþjónusta nam 1,1 milljarði en aðeins hluti þeirrar fjárhæðar, eða 435 milljónir króna fóru til íslenska lögfræðistofa. Fréttablaðið hefur eftir Kristjáni Óskarssyni, framkvæmdastjóra Glitnis, að flestar stóru lögfræðistofurnar á Íslandi vinni einhver störf fyrir slitastjórnina. Stofur sem tengjast aðilum í slitanefndinni, Steinunni Guðbjartsdóttur og Páli Eiríkssyni, séu hvor með sinn fulltrúann sem starfi í verktöku hjá slitastjórninni. Að öðru leyti hafi þær ekki nein verkefni hjá slitastjórninni.