Það sem upphaflega hófst sem aðferð til að hjálpa syni sínum við að auka málfærni breyttist í bókaútgáfu. Nú eru bækurnar um fígúruna MiMi, sem hjálpar börnum að læra orð með táknum, bráðum tíu talsins og fleiri verkefni sem bíða. Þau Hanna Kristín Skaftadóttir og Hjalti Kr. Melsted stefna einnig á að gefa út samstæðupúsl, vinnubækur og púsluspil á næstu mánuðum en þau hafa sjálf unnið allar bækurnar ásamt myndskreytingum.

Fjármögnun á verkefninu gekk vel og hafa þau þegar fjármagnað síðustu þrjár bækurnar sem eru í vinnslu. „Við fengum tvöfalda fjármögnun á allt verkefnið með styrkveitingum og góðvild ýmissa manna sem höfðu trú á verkefninu. Svo fór Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur yfir efnið okkar. Hún kennir í Bandaríkjunum og notar þessar gömlu teikningar frá okkur fyrir sína skjólstæðinga. Það var mjög gott fyrir okkur að vita af því að einn reynslumesti talmeinafræðingur landsins, að okkar og margra annarra mati, væri að mæla með okkar efni, það var mikils virði og hjálpaði til með viðtökurnar. Við vorum því vel búin með stórkostlegt fólk sem studdi við bakið á okkur og alveg frábært dreifinet.“

En hvers vegna vilduð þið gefa bækurnar út sjálf?

„Það var aldrei ætlunin að fara í útgáfuna sjálf. En eftir viðræður við bókaforlög, útgefendur, reynslubolta og rithöfunda þá var niðurstaðan sú að við myndum gefa bækurnar út sjálf. Aðalástæða þess er sú að við vildum fá að stýra og stjórna verkefninu sjálf alveg frá litavali, textauppsetningu og áframhaldandi þróun verkefnisins. Við vissum að það yrði erfiður hjalli að rúlla þessu af stað. En það tókst nokkuð snurðulaust. Við fengum frábært fólk til liðs við okkur sem hafði óbilandi trú á okkur og verkefninu. Það var að okkar mati klárlega rétt ákvörðun að gefa út bækurnar sjálf. Við höfum lært mjög mikið af því og allt ferlið hefur verið virkilega skemmtilegt.“

Ítarlegt viðtal er við þau Hönnu og Hjalta í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .