27.806 dollarar, eða um 3,7 milljónir króna, söfnuðust á vefnum Kickstarter til stuðnings verkefninu Jungle Bar. Um er að ræða orkustöng úr svokölluðu krybbuhveiti. Fjármögnunin kláraðist fyrir um mánuði síðan en Búi Bjarmar Aðalsteinsson og Stefán Atli Thoroddsen, sem standa að baki verkefninu, stefndu upphaflega á að safna 15.000 dollurum.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Stefán að næstu skref séu að klára endanlega uppskriftina að orkustönginni sem og pakkningarnar. "Þegar það er búnir þá erum við bara tilbúnir til þess að fara að panta framleiðslu hjá framleiðandanum okkar í Kanada," segir Stefán. Krybbuhveiti (e. cricket flour) er eitt mikilvægasta hráefnið í orkustöngina. Krybbur eru skordýr sem eru skyld engisprettum.

Stórir erlendir aðilar haft samband

Búið er fínpússa uppskriftina, meðal annars með því að auka aðeins við saltið, og nú bíða þeir Stefán og Búi eftir því að fá nákvæmar upplýsingar um næringarinnihald stanganna til þess að geta klárað umbúðirnar utan um þær. Spurður um það hvenær búast megi við því að stangirnar verði settar í sölu segir Stefán að stefnt sé á að fyrstu stangirnar komi úr framleiðslu í ágúst eða september. "Þá ætlum við að flytja einhvern part af framleiðslunni til Íslands og ætlum að byrja að leika okkur að því að selja okkur hérna heima."

Aðspurður segir Stefán að stórir erlendir aðilar séu búnir að hafa samband við þá. "Viðræður eru samt ekki komnar það langt. Þeir vilja fá að sjá stykkið."

Búist þið við því að græða á þessu?

"Já, að sjálfsögðu, annars værum við ekki að þessu. Þetta er bara bullandi business."