Geirþrúður Alfreðsdóttir, dóttir Alfreðs Elíassonar, fyrrum forstjóra Loftleiða og Flugleiða, sat við stýrið í vél Icelandair til New York í dag. Flugáhöfnin var skipuð afkomendum og fjölskyldumeðlimum þeirra sem flugu til borgarinnar í fyrsta fluginu á þessum degi árið 1948. Flogið var með þessum hætti í tilefni af því að 65 ár voru liðin í dag frá fyrsta Ameríkufluginu héðan.

Fram kemur í tilkynningu frá Icelandair að lagt var af stað í fyrstu áætlunarferðina til Bandaríkjanna 25. ágúst árið 1948 á 46 sæta Skymaster flugvél sem bar nafnið Geysir. Millilent var í Goose Bay í Kanada til að taka eldsneyti og lenti svo vélin á Idlewild flugvelli í New York 26 ágúst, en flugvöllurinn var endurskírður JFK 1963. Koma Geysis til New York vakti talsverða athygli og birtust fréttir af þessu fyrsta íslenska áætlunarflugi í helstu dagblöðum vestra.

Eftirfarandi voru í áhöfn vélarinnar í dag:

  • Geirþrúður Alfreðsdóttir flugstjóri, dóttir Alfreðs Elíassonar flugstjóra
  • Jóhann Axel Thorarensen flugmaður, barnabarn Axels Thorarensen siglingafræðings
  • Katrín Guðný Alfreðsdóttir flugfreyja, dóttir Alfreðs Elíassonar flugstjóra
  • Gunnhildur Mekkinósson flugfreyja, bróðurdóttir Fríðu Mekkinósdóttur flugfreyju
  • Ásdís Sverrisdóttir flugfreyja, barnabarn Sigurðar Magnússonar blaðafulltrúa Loftleiða og farþega í fyrstu ferðinni
  • Halldóra Finnbjörnsdóttir flugfreyja, dóttir Finnbjörns Þorvaldssonar, skrifstofustjóra Loftleiða
  • Stefanía Ástrós Benónýsdóttir flugfreyja, barnabarn Alfreðs Elíassonar flugstjóra.

Áhöfninni voru afhent blóm í tilefni dagsins og var myndin tekin á Keflavíkurflugvelli í dag fyrir brottför afmælisflugsins. Hin myndin hér að neðan var tekin þegar fulltrúar borgarstjórnar New York tóku á móti áhöfninni og forystumönnum félagsins 26. Ágúst 1948.

© Aðsend mynd (AÐSEND)