*

miðvikudagur, 27. október 2021
Innlent 18. júní 2014 15:22

Hafa frest til 1. júlí

Icelandair Group og flugvirkjar hafa frest til 1. júlí næstkomandi til að ná kjarasamningi, ellegar mun gerðardómur dæma i málinu.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Flugvirkjafélag Íslands og Samtök atvinnulífsins, fyrir hönd Icelandair Group, fá frest til 1. júlí næstkomandi til að ná kjarasamningi sín í milli, samkvæmt frumvarpi Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra um bann við verkfalli flugvirkja. Ráðherra mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi á fjórða tímanum í dag. Náist ekki samningar fyrir þann tíma skal gerðardómur fyrir 1. ágúst næstkomandi ákveða kaup og kjör. 

Ákvarðanir gerðardóms skulu vera bindandi sem kjarasamningur á milli aðila frá og með gildistöku laga þessara og gilda þann tíma sem gerðardómur ákveður. Endanlegt uppgjör launa skal fara fram eigi síðar en fjórum vikum eftir að niðurstaða gerðardóms liggur fyrir.

Þetta er í þriðja sinn á árinu sem Hanna Birna Kristjánsdóttir mælir fyrir frumvarpi um bann við verkfalli aðila í ferðaþjónustu.