Elvar Árni Lund, formaður Skotvís, segist aðspurður hafa heyrt af veiðimönnum sem hafi haldið til veiða utan þess tímabils sem heimilt er að veiða á. „Það eru margir mjög óánægðir með þessar skorður sem okkur eru settar. Menn sem komast ekki helgi eftir helgi sökum veðurs hugsa sér gott til glóðarinnar þegar veðrið lagast og þeir kannski ekki búnir að fá neitt en vilja ná sér í matinn," segir hann.

Talsverðrar óánægju hefur gætt meðal rjúpnaveiðimanna með að hafa eingöngu heimild til að veiða 12 daga ársins, en færð og veður hefur verið erfið nokkuð stóran hluta þessa tímabils að sögn Elvars.

Verður langt að sækja án snjós

Hann segir að veðurspá fyrir seinustu veiðihelgina þetta árið líti ekki vel út. Heitt hafi verið á öllu landinu undanfarna daga og hlýindin eigi að halda áfram inn í helgina. Sumstaðar muni einnig vera nokkuð hvasst og úrkoma.

Vegna þessa verði lítill snjór á mörgum veiðistöðum og því ósennilegt að fá fugl á þeim svæðum. „Einhverjir munu þurfa að leita langt til að finna rjúpur," segir Elvar.