Starfsgreinasambandið hefur gengið frá verkfallsáætlun þar sem búið er að ákveða allar tímasetningar. Vinnur það nú að því að senda út atkvæðaseðla vegna sameiginlegrar atkvæðagreiðslu tólf þúsund félagsmanna um heimild til verkfallsboðunar. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu .

Þar segir að ekki fáist upplýst í hverju aðgerðirnar felist en samkvæmt upplýsingum blaðsins sé gert ráð fyrir að fyrstu aðgerðir byrji strax eftir páska á afmörkuðum sviðum og ef ekkert þokist muni verkfallsaðgerðirnar þyngjast eftir því sem líður á aprílmánuð.

„Það er alveg ljóst að það er ekki samstaða um þá leið sem eigi að fara. Allar þær kröfugerðir sem komið hafa fram eru langt út fyrir það svigrúm til launahækkana sem er fyrir hendi og eru í raun til þess fallnar að hleypa verðbólgu af stað aftur, sem veldur okkur miklum vonbrigðum,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, um málið.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir í samtali við Morgunblaðið að Starfsgreinasambandið sé byrjað að undirbúa verkfallsaðgerðir og muni að öllum líkindum hefja aðgerðir fljótlega eftir páska, samþykki félagsmenn það í atkvæðagreiðslu.