Sjávarútvegsfyrirtæki hafa greitt niður 121 milljarð króna af skuldum sínum umfram nýjar lántökur síðastliðin sex ár. „Árin sex þar á undan voru nýjar lántökur umfram afborganir um 57 milljarðar króna svo viðsnúningurinn er mikill,“ sagði Jónas Gestur Jónasson, löggiltur endurskoðandi og meðeigandi Deloitte, í ræðu sinni á Sjávarútvegsdeginum sem fram fór í Hörpu í gær.

Hann sagði að þessi mikla niðurgreiðsla á skuldum hefði haft sín áhrif á fjárfestingar sjávarútvegsfélaga. Fjárfestingar í fyrra hefðu numið 11 milljörðum króna en voru 17 milljarðar árið 2012. Í öllum samanburði var fjárfestingin lítil árið 2013. „Nokkur félög hafa síðustu mánuði verið að tilkynna um umfangsmiklar fjárfestingar, sem munu væntanlega dreifast á næstu ár,“ sagði Jónas.