Frá því að veiðigjald í núverandi mynd var fyrst innheimt af útgerðarfyrirtækjum árið 2004 hafa þau greitt samtals rétt rúma nítjánmilljarða króna og við það bætast svo 9,9 milljarðar króna í gegnum sérstaka veiðigjaldið sem fyrst var innheimt árið 2012.

Frá 2004 hafa útgerðarfyrirtæki greitt samtals 28,9 milljarða króna í veiðigjöld og þar af nema greiðslurnar á árunum 2012 og 2013 19,5 milljörðum króna. Kemur þetta fram í gögnum frá Fiskistofu. Fyrst um sinn voru fjárhæðirnar ekki háar í stóra samhenginu, eða vel innan við milljarð á ári árin 2004 til og með 2008, en hafa farið stigvaxandi frá þeim tíma. Samtals námu greiðslur vegna veiðigjalds og sérstaks veiðigjalds 9,9 milljörðum árið 2012 og 9,8 milljörðum það sem af er þessu ári, en tölurnar fyrir þetta ár eiga við um greiðslur til og með 31. október í ár. Í öllum tilvikum er miðað við almanaksár en ekki fiskveiðiár.

Það segir sína sögu að á fiskveiðiárinu 2012/2013, þ.e. frá 1. september 2012 til 31. ágúst 2013 námu greiðslur vegna veiðigjalds 4,7 milljörðum og vegna sérstaka veiðigjaldsins 10,8 milljörðum. Þegar tekið er tillit til 2,8 milljarða vaxtaafsláttar námu heildargreiðslurnar 12,7 milljörðum króna. Fyrir yfirstandandi fiskveiðiár er gert ráð fyrir því að almenna veiðigjaldið skili þremur milljörðum og sérstaka veiðigjaldið öðrum þremur.

Vaxtaafsláttur verði um 1,2 milljarðar króna og heildarfjárhæðin verði því um 5,2 milljarðar. Í upphafi fiskveiðiársins var gert ráð fyrir því að 10 milljarðar kæmu í ríkiskassann í gegnum veiðigjöldin tvö. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd hefur veiðigjaldið tekið töluverðum breytingum milli ára, einkum eftir stjórnarskiptin 2009, enda hækka greiðslurnar hratt frá þeim tíma. Fiskveiðiárið 2004-2005 var gjaldið 1,99 krónur á hvert þorskígildiskíló og sveiflaðist nokkuð næstu árin og var lægst fiskveiðiárið 2008-2009, eða 0,71 króna. Árið 2008 námu greiðslur vegna veiðigjaldsins 180 milljónum króna og er það lægsta gildið á tímabilinu sem um ræðir. Strax ári seinna var veiðigjaldið komið í 3,47 krónur og greiðslurnar námu 1.014 milljónum króna. Síðustu tvö árin hefur veiðigjaldið staðið í 9,50 krónum á kíló og greiðslurnar verið á bilinu 4,7-4,9 milljarðar króna. Sérstaka veiðigjaldið hefur einnig tekið töluverðum breytingum, ekki síst eftir stjórnarskiptin í vor, en eitt fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar var að lækka sérstaka gjaldið til muna til eins árs og til stendur að afnema gjaldið eftir það. Lögin um sérstakt veiðileyfagjald, sem áttu að taka gildi í haust, komu ekki til framkvæmda.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .