Laun starfsmanna á almennum vinnumarkaði hafa tekið að hækka talsvert hraðar en laun opinberra starfsmanna ef marka má launavísitölu einstakra launþegahópa sem Hagstofa Íslands reiknar út ársfjórðungslega. Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs var launavísitala starfsmanna á almennum markaði 146,9 stig og hafði hækkað um 7,8% á milli ára (var 139,1 stig á fyrsta ársfjórðungi 2010) en launavísitala opinberra starfsmanna var 143,3 stig og hafði hækkað um 1,84% á milli ára (var 140,7 stig á sama tímabili 2010).

Taka ber fram að vísitalan segir okkur ekkert um hvor launþegahópurinn er með hærri laun þannig að þótt vísitölugildi opinberra starfsmanna hafi verið hærra en vísitölugildi starfsmanna á almennum markaði á fyrsta ársfjórðungi 2010 þýðir það ekki endilega að laun opinberra starfsmanna hafi verið hærri. Það þýðir eingöngu að laun opinberra starfsmanna hafi hækkað meira frá því að vísitölugildið 100 (vísitölugrunnurinn) var ákvarðað en það mun miða við meðaltal ársins 2005. Vísitalan mælir því einungis breytingar á launum miðað við þann vísitölugrunn sem við á hjá opinberum starfsmönnum annars vegar og þeim sem starfa í einkageiranum hins vegar. Ekki fengust upplýsingar um það hjá Hagstofunni við hvaða launatölu var miðað þegar vísitölugrunnurinn var ákvarðaður en víst er að hann er ekki sá sami hjá launþegahópunum tveimur.

Meðallaun háskólamenntaðra á pari

Hagstofan hefur um árabil reiknað meðallaun á almennum markaði en ekki opinberra starfsmanna en samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni stendur það þó til bóta. Fjármálaráðuneytið birtir þó á vef sínum meðallaun ríkisstarfsmanna eftir stéttarfélögum. Á meðfylgjandi skýringarmynd má sjá þróun meðallauna hjá starfsmönnum hins opinbera, eftir stéttarfélögum, og hjá starfsmönnum á almennum markaði – en þá ber að taka tillit til þess að í þeim hópi eru líka ófaglærðir og verkamenn – frá árinu 2007. Eins og sjá má af myndinni eru meðallaun háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna nokkurn veginn á pari við, og jafnvel aðeins hærri eftir hrun, meðallaun á hinum almenna markaði en laun kennara og félaga BSRB eru lægri.

Launaþróun opinberra
Launaþróun opinberra
© vb.is (vb.is)

Á móti þessu kemur að starfsöryggi ríkisstarfsmanna er jafnan meira, eins og berlega kom í ljós í kjölfar hrunsins, auk þess sem lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins njóta ríkisábyrgðar.

Í þessu samhengi ber einnig að skoða að ekki virðast allir ríkisstarfsmenn sitja við sama borð en eins og fram kom í fréttum Ríkissjónvarpsins á sunnudag hefur ríkisstjórnin ákveðið að leiðrétta launaskerðingu háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins frá árinu 2009. Byggir þessi ákvörðun á könnun sem leitt hefur í ljós að kjör starfsmanna ráðuneytanna hafa versnað í samanburði við kjör annarra ríkisstarfsmanna með sambærilega menntun.