Fons eignarhaldsfélag Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, hefur selt hluti sína í Iceland, Landic Property, Booker, Goldsmith fyrir um 100 milljarða króna.

Að sögn Pálma Haraldssonar fengu þeir gott tilboð sem þeir ákváðu að taka enda innileysir félagið gríðarlegan hagnað með sölunni.

Þar munar mest um tæplega 30% hlut í verslanakeðjunni Iceland sem íslenskir fjárfestar keyptu fyrir 35 mánuðum síðan.

„Fjárfesting okkar í Iceland hefur gefið okkur 77 milljarða króna í nettóhagnað og sumir hafa verið að velta því upp að það sé Íslandsmet,” sagði Pálmi í samtali við Viðskiptablaðið.

Pálmi sagði að þegar þeir fjárfestu í Iceland fyrir 35 mánuðum síðan hefðu fáir haft trú á þeirri fjárfestingu.

Fons átti 12% hlut í birgðasölunni Booker og 25% hlut í skartgripaversluninni Goldsmith. Pálmi sagði að allar þessar fjárfestingar hefðu gengið mjög vel og Goldsmith vari þar engin undantekning.

Að sögn Pálma hefur þessi sala óhjákvæmileg í för með sér áherslubreytingar hjá Fons sem heldur eftir fjárfestingum sínum í NTH og Iceland Express. Pálmi sagði að rekstur Sterlings væri mjög erfiður um þessar mundir og því væri brýnt að geta helgað sig því verkefni. “Það er ekkert leyndarmál að það eru mörg brýn verkefni sem bíða hjá Sterling enda staðan alvarleg. En eins og var með Iceland Express fyrir nokkrum árum þá tel ég mjög spennandi að takast á við þetta.”

Að sögn Pálma er Fons eftir viðskiptin gríðarlega sterkt fjárhagslega með eignir upp á 60 milljarða króna og skuldsetningu innan við 10%. “Þetta er nánast skuldlaust félag eins og á líka við um dótturfélögin.”

Aðspurður um frekari fjárfestingar sagði Pálmi að engin ákvörðun hefði verið tekin um slíkt en eiginfjárhlutfall Fons væri gríðarsterkt núna sem gæfi félaginu áhugaverð tækifæri. Meðal annarra eigna Fons er Skeljungur hér á Íslandi.