Frá árinu 2012 hafa 13 skuldabréfaútgáfur upp á rúma 38 milljarða króna verið teknar til viðskipta í Kauphöllinni. Stjórnir útgefenda hafa heimild til útgáfu upp á tæpa 53 milljarða og er ónýtt heimild þeirra því tæpir 15 milljarðar króna. Af þessum 13 skuldabréfaútgáfum eru tíu útgefnar af fagfjárfestasjóðum. Langstærstur hluti skuldabréfaútgáfnanna er með fasteign eða safn fasteigna sem undirliggjandi eign eða tæplega 33 milljarðar króna sem er 86% af heildinni.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í grein Harðar Tuliniusar, sérfræðings á vettvangs- og verðbréfaeftirlitssviði Fjármálaeftirlitsins (FME), sem hann ritar í nýjasta tölublaði Fjármála . Hörður bendir á að áætluð árleg fjárfestingarþörf lífeyrissjóða sé um 100 milljarðar króna. Hann segir útlit fyrir að á þessu ári við skuldabréfaútgáfan svipuð.

Hörður skrifar: „„Þörf er á fjárfestingakostum fyrir lífeyrissjóði til að ráðstafa þeim fjármunum sem þeir hafa yfir að ráða á sem skilvirkastan hátt. Vandamálið við þetta fyrirkomulag er hins vegar tvíþætt út frá markaðs- og áhættusjónarmiðum. Fyrra vandamálið tengist því að umrædd starfsemi tekur viðskipti frá hefðbundinni, eftirlitsskyldri útlána- starfsemi. Bankar með almennan rekstur geta ekki keppt í vaxtakjörum við slíka sjóði sem hafa nánast enga yfirbyggingu og þurfa ekki að standast þær ströngu kröfur sem eftirlitsaðilar gera til viðskiptabanka. Hætt er við að verðmætustu eignirnar með bestu tryggingarnar færist úr lánasöfnum bankanna til fagfjárfestasjóða. [..] Síðara vandamálið stafar af því að almennum fjárfestum er ekki ætlað að fjárfesta í fagfjárfestasjóðum. Fjármálagerningar sem teknir hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði mega ekki vera bundnir söluhömlum af neinu tagi og skal frjálst framsal þeirra vera tryggt að öllu leyti. Í tilfelli skuldabréfa útgefinna af fagfjárfestasjóðum sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði, verður til fjármálagerningur gefinn út af útgefanda sem almennir fjárfestar geta ekki fjárfest í, en geta aftur á móti hæglega keypt skuldabréfaútgáfur sama útgefanda.“