Marel og íslenska fjárfestingarfélagið LME er nú komið í lykilstöðu gagnvart stjórn hollensku iðnaðarsamsteypunnar Stork að því er kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag. LME hefur stöðugt verið að auka hlut sinn á undanförnum misserum og er nú komið með 32,16% hlut í Stork. Er LME þar með orðið langstærsti einstaki hluthafinn. Í krafti þess getur LME með stuðningi fjárfestingarfélagsins Delta Lloyd nú komið í veg fyrir yfirtökuáform breska einkahlutafélagsins Candover Investment sem stjórn Stork er umhugað um að verði að veruleika.


Hollenska viðskiptablaðið Financieele Dagblad greindi frá því fyrir nokkrum dögum að Jan Kalff stjórnarformaður Stork (Supervisory Board) tæki nú í fyrsta skiptið þátt í viðræðum við Árna Odd Þórðarson, stjórnarformann Marels, til að reyna að finna mögulega lausn á málinu. Kalff er þekktur í hollenskum fjármálaheimi og hefur setið í stjórnum ýmissa félaga og var m.a formaður framkvæmdastjórnar ABN AMRO Holding N.V. og AMRO bankans. Þá hefur hann setið í stjórn N.V. Luchthaven Schiphol og fleiri félaga.


Marel hefur marglýst því yfir að það samþykki ekki yfirtökutilboð Candover upp á 47 evrur á hlut því félagið væri mun meira virði. Sömu sögu er að segja af Delta Lloyd, en félagið hefur sagt að það sé ekki til viðræðu um lægri upphæð en 49,35 evrur á hlut.


Marel hefur um margra ára skeið átt samstarf við Stork Food Systems sem er ein fjögurra meginstoða Stork samsteypunnar. Gerði Marel Food Systems m.a. skilyrt tilboð í allt hlutafé Stork Food Systems í óformlegum viðræðum í desember 2005. Hljótt var um þær viðræður og var stjórn Stork m.a. gagnrýnd harðlega fyrir það á hluthafafundi í fyrrahaust að hafa ekki upplýst hluthafana um áhuga Marels.