Stjórn Hands Holding hefur sent frá sér tilkynningu þar sem kemur fram að hætt hefur verið við sölu á Opin Kerfi Group. Í tilkynningunni kemur fram að fyrr á árinu ákvað stjórn Hands Holding að fela Straumi-Burðarás að kanna hugsanlega sölu á Opin Kerfi Group. Sú athugun hefur nú leitt til þess að stjórn Hands Holding hefur ákveðið að Opin Kerfi Group verði ekki selt.

Þess í stað verður haldið áfram að vinna að vexti og uppgangi félagsins og nýta frekar þau sóknarfæri sem þar eru til staðar.


Opin Kerfi Group er með starfsemi á Íslandi, Svíþjóð og Danmörku. Heildarvelta félagsins á árinu 2007 er áætluð um 13 milljarðar íslenskra króna og áætluð EBITDA er um 400 milljónir króna sem er 50% vöxtur frá árinu 2006. Á undanförnum árum hafa tekjur af sérfræðiþjónustu verið að aukast jafnt og þétt og eru mikil vaxtartækifæri fólgin á því sviði samhliða sölu á hágæða tæknibúnaði segir í tilkynningu.


Hands Holding er fjárfestingafélag á sviði upplýsingatækni. Dótturfélög eru Opin Kerfi Group, LandsteinarStrengur, HugurAx, Hands í Noregi, SCS í Bandaríkjunum og Aston Baltic í Lettlandi. Heildarvelta Hands Holding á árinu 2007 er áætluð um 18 milljarðar ISK.