*

föstudagur, 14. ágúst 2020
Innlent 20. mars 2013 16:08

Hafa keypt Sigurjón Sighvatsson úr Sjóklæðagerðinni

Baráttunni um móðurfélag 66° Norður er lokið með kaupum Helga Rúnars Óskarssonar og Bjarneyjar Harðardóttur á öllu hlutafé.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Félagið SFII slhf. hefur eignast allt hlutafé í Sjóklæðagerðinni hf. sem m.a. á og framleiðir vörur undir merkjum 66°NORÐUR. Í tilkynningu kemur fram að SFII slhf. er í eigu Helga Rúnars Óskarssonar forstjóra Sjóklæðagerðarinnar hf. og Bjarneyjar Harðardóttur og fjölskyldu.

SFII átti fyrir 51% hlutafjár í Sjóklæðagerðinni hf. og festi nýverið kaup á 49% hlut af félagi í eigu Sigurjóns Sighvatssonar og annarra fjárfesta. Félag Helga Rúnars og Bjarneyjar fer því nú með 100% eignarhlut í Sjóklæðagerðinni hf. Sigurjón Sighvatsson og hans fulltrúar hafa vikið úr stjórn og varastjórn félagsins. Kaupverð er trúnaðarmál milli kaupanda og seljanda.

Greint var frá því á vb.is í morgun að breytingar hefðu verið gerðar á stjórn félagsins og að skipt hefði verið um endurskoðendur fyrirtækisins. 

Eins og áður hefur komið fram hefur staðið yfir mikil barátta innan fyrirtækisins sem náði hámarki síðasta haust þegar minnihlutaeigendur innan Sjóklæðagerðarinnar, með Sigurjón Sighvatsson í fararbroddi, reyndu að fá lögbann á það að Bjarney Harðardóttir, eiginkona Helga Rúnars starfaði fyrir fyrirtækið. Héraðsdómur hafnaði lögbanninu.