Fyrirtækið Eko Baltic, sem er í meirihlutaeigu eignarhaldsfélagsins Bót ehf., gekk nýlega frá kaupum á lettneska fyrirtækinu SIA Eko Kurzeme. Þessi kaup koma í kjölfar kaupa á nokkrum lettneskum sorphreinsunar- og endurvinnslufyrirtækjum undanfarið ár.

Eignarhaldsfélagið Bót er í eigu Gámaþjónustunnar og Efnamóttökunnar og á félagið 70% hlut í Eko Baltic á móti þarlendum hluthöfum. Ekki er langt síðan Efnamóttakan kom inn í hluthafahópinn. Íslensku fjárfestarnir hafa kauprétt að öllu félagsinu.

Að sögn Sveins Hannessonar, framkvæmdastjóra Gámaþjónustunnar, og stjórnarformanns Eko Baltica, eru íslensku fjárfestarnir með þessu að nýta sér tækifæri til uppbyggingar í landi sem er komið skemmra á veg en Ísland í meðhöndlun úrgangsvöru. Framundan er að uppfylla kröfur Evrópusambandsins á þessu sviði og því má gera ráð fyrir að fjárfestingar verði talsverðar á næstunni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .