Formenn stjórnarflokkanna hafa fengið að sjá lykiltillögur sem sérfræðingahópur um aðgerðir gegn skuldavanda heimilanna hefur unnið að. Sérfræðingahópurinn hefur þó ekki skilað tillögunum frá sér. Lokafrágangur stendur yfir og mun verkið á lokametrunum, samkvæmt heimildum VB.is. Gefið hefur verið út að tillögurnar verði kynntar fyrir mánaðamótin. Fram kemur í ítarlegri umfjöllun í Viðskiptablaðinu í dag að þær verði líklega kynntar á morgun eða um helgina.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði á fundi miðstjórnar Framsóknarflokksins um síðustu helgi að þegar tillögurnar hafi verið kynnt geti fólk reiknað út áhrif aðgerðanna. Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar, segir í samtali við VB.is reiknivél eitt af því sem rætt hafi verið um í gegnum tíðina. Ekki liggi þó fyrir hvort eða hverjir muni smíða og halda utan um reiknivélina. Eins er ekki enn ljóst hvort reiknivél muni yfir höfuð líta dagsins ljós.