Rússneskir frystitogarar hafa einir þjóða stundað úthafskarfaveiðar utan 200 sjómílna markanna við Reykjaneshrygg undanfarin ár. Aflanum hefur verið landað í Hafnarfirði og síðan fluttur sjóleiðina til Asíu. Landanir Rússanna hafa verið drjúg búbót fyrir  Hafnarfjarðarhöfn og íslensk þjónustufyrirtæki. Nýlega er lokið sumarvertíð átta rússneskra frystitogara við Reykjaneshrygginn og var aflinn liðlega 14 þúsund tonn af frystum karfa og 475 tonn af mjöli.

Saga veiða á úthafskarfa við Reykjaneshrygg nær tæp fjörtíu ár aftur í tímann. Talið er að þær hafi hafist fyrir alvöru árið 1982 þegar Sovétmenn mættu þar með stórvirk skip. Á þessu fyrsta ári veiddu Sovétmenn 61 þúsund tonn af karfa og á næstu árum bættust skip frá Austur-Þýskalandi og Búlgaríu í hópinn. Ársaflinn fram til 1988 var á bilinu 60-105 þúsund tonn. Þetta kemur meðal annars fram í grein eftir Guðjón Einarsson, fyrrverandi ritstjóra Fiskifrétta, í Bændablaðinu í maí 2018. Eftir fall Sovétríkjanna minnkaði aflinn niður í 28-38 þúsund tonn árlega og jókst ekki aftur fyrr en íslensk skip hófu úthafskarfaveiðar af krafti. Ársaflinn var í heildina á bilinu 100-150 þúsund tonn á árunum 1997-2004. Hámarki náði afli íslenskra skipa 1996, alls 62 þúsund tonn.

Varað við ofveiði

Veiðiálagið var mikið í gegnum árin og þótt Alþjóðahafrannsóknarráðið hafi varað við ofveiði á úthafskarfa í mörg ár komu þjóðir sem áttu hagsmuni að gæta sér ekki saman um áætlun um stýringu á þessum veiðum fyrr en 2011. Þessar þjóðir voru Ísland, Færeyjar, Grænland, Noregur og ESB. Rússar sniðgengu þetta samkomulag og hafa ákveðið sér einhliða um eða yfir 25 þúsund tonna kvóta ár hvert en hinar þjóðirnar skipta með sér rúmum 6 þúsund tonna kvóta.

Lúðvík Geirsson, hafnarstjóri Hafnarfjarðarhafnar, segir að vertíð Rússanna sé lokið að þessu sinni en hún standi jafnan yfir frá maí og fram í ágúst. Allt eru þetta frystitogarar sem landa frosnum afurðum í Hafnarfirði. Stórum hluta afurðanna er skipað í flutningaskip á vegum rússneskru útgerðanna en hluti fer í gáma og er flutt til Japan.

  • Svæðið er gríðarstórt og illa gekk því að meta stofnstærð úthafskarfans. Mynd/LHG

„Þeir hausskáru karfann hér á árum áður en sífellt stærri hluti aflans er heilfrystur núna. Karfi er eftirsótt vara og aðallega seld til Asíulanda. Rússarnir hafa verið að fá góð verð fyrir hann. Þeir eru að veiðum úti við Hrygginn og það hafa verið skiptar skoðanir um þessar veiðar sem aðrar þjóðir stunda ekki. Íslensk skip eru hætt að veiða þarna og Rússarnir hafa sjálfir sett sér kvóta. Karfaslóðin er á opnu og alþjóðlegu svæði og engir samningar um þessar veiðar. Rússarnir sækja þangað liðlega 20 þúsund tonn á hverju ári. Þeir hafa landað hérna hjá okkur í um áratug og er stór hluti af okkar sumarvertíð hjá höfninni,“ segir Lúðvík.

Gára, dótturfélag Eimskips og TVG-Zimsen, hefur þjónustað rússneska flotann með áhafnaskipti, kost og varahluti. Tvö skipanna átta halda svo áfram veiðum í grænlenskri lögsögu samkvæmt samningum þar um á grálúðu og landa aflanum í Hafnarfirði langt fram eftir september.

Þegar leitað var upplýsinga hjá Fiskistofu um nákvæmt magn landaðs úthafskarfa í Hafnarfjarðarhöfn af rússneskum skipum á þessu ári fengust þau svör að þessar upplýsingar væru ekki aðgengilegar á vef Fiskistofu. Samkvæmt upplýsingum frá Hafnarfjarðarhöfn lönduðu rússneskir togarar 12.976 tonnum árið 2017, 13.177 tonnum 2018, 12.640 tonnum 2019, 11.705 tonnum af frystum karfa og 543 tonnum af mjöli 2020 og á nýlokinni vertíð 13.808 tonnum af frystum karfa og 475 tonnum af mjöli.