Viðskiptablaðið greindi frá því þann 31. mars síðastliðinn að Arion banki hefði hafið leit að kjölfestufjárfesti til að kaupa allt að 30% hlut í Högum áður en það yrði sett á markað.

Ástæðan var sú að fagfjárfestar á borð við lífeyrissjóðina höfðu ekki sýnt almennu hlutafjárútboði Haga áhuga og því væri byrjað að ræða aðrar leiðir til að hámarka endurheimtir bankans vegna Haga.

Í dag var síðan greint frá því opinberlega að Arion banki áformi að selja kjölfestufjárfesti 15 til 29% hlut í Högum. Ennfremur var sagt frá því að fjárfestum sem hafa áhuga á að kaupa allan 99,5% hlut Arion í Högum gefist kostur á því að leggja inn slíkt tilboð.

Í mars var greint frá því í Viðskiptablaðinu að til greina kæmi að selja Haga í heilu lagi eða mögulega leita til erlends kaupanda.

Dræm viðbrögð fagfjárfesta

Arion banki eignaðist hlut sinn í Högum við yfirtöku á eignarhaldsfélaginu 1998 í október 2009. Félagið er stærsta smásölufyrirtæki á Íslandi og var áður í eigu Baugs-fjölskyldunnar.

Upphaflega átti að tryggja Jóhannesi Jónssyni, stofnanda Bónus, og lykilstarfsmönnum Haga forkaupsrétt á allt að 15% hlutafé í félaginu. Viðbrögð almennings og fjárfesta við þeim tíðindum voru ekki jákvæð. Þau viðbrögð leiddu til þess að stjórnendur Arion fóru að leita annarra leiða við að selja Haga.