Á ímabilinu 1997 til 2017 nam ávöxtun samtryggingardeilda allra lífeyrissjóða að jafnaði 3,5% samkvæmt grein sem Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði og formaður bankaráðs Seðlabankans, skrifaði í Tímariti um viðskipti og efnahagsmál í haust, en 3,8% sé horft til vegins meðaltals eftir stærð sjóðanna.

Gylfi bendir á að þótt ávöxtun lífeyriskerfisins í heild standist þau viðmið sem þeir hafi sett sér um 3,5% raunávöxtun sé talsverður munur á ávöxtun milli lífeyrissjóða. Launþegar hafa þó sjaldnast eitthvað að segja um í hvaða lífeyrissjóð þeir greiða. „Flestir launþegar hafa ekkert val, þegar þeir eru búnir að velja sér starf eru þeir komnir í eitthvert verkalýðsfélag og það er tengt lífeyrissjóði. Það kemur til af því að lífeyriskerfið er mjög samofið launakerfinu.

Það er samið um lífeyrisiðgjöld og annað því tengt í kjarasamningum. Það er galli eða allavega eiginleiki á íslenska lífeyriskerfinu af því að hin ýmsu störf höfða til mismunandi hópa,“ bendir Gylfi á. Gylfi bendir á að ávöxtunin hafi verið 1,7% á ári hjá þeim lífeyrissjóði þar sem hún var lægst á árunum 1997-2017 en 6,2% þar sem hún var hæst. Hafi sjóðfélagi greitt 100 krónur á ári á föstu verðlagi frá 1997-2017, hefði ávöxtun þess sjóðs sem var lægst numið 300 krónum en 2.100 krónum þar sem hún var hæst. Því væri hver króna sem sjóðfélagi hafi greitt sjóðnum með lægstu ávöxtunina orðin að 1,14 krónum en að 2,03 krónum hjá sjóðfélaganum sem skilaði hæstri ávöxtun.

Fleiri þættir geti haft töluverð áhrif á ávöxtun sjóðanna sem launþegar hafi lítið um að segja. Töluverður munur  er á hve hátt hlutfall öryrkja sé meðal sjóðfélaga en hlutfallið er oftar en ekki nátengt þeirri atvinnugrein sem sjóðfélagar starfi í. Hlutfall öryrkja er að meðaltali 7% en hlutfallið er frá 0% og upp í 15% milli lífeyrissjóða. Þá séu kynjahlutföll lífeyrissjóða talsvert ólík og þar sem konur lifi alla jafna tveimur árum lengur en karlar megi  sjóðfélagar  þar sem sjóðfélagar eru að mestu konur gera ráð fyrir að eftirlaunin dreifist á fleiri og því verði lífeyrisgreiðslur að jafnaði lægri á hverju ári en ella. Gylfi bendir einnig á að  fjárfestingarstefna  sjóðanna geti verið nokkuð ólík, þótt hún sé í dag áþekk meðal stærstu lífeyrissjóðanna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .