Tekjur ríkissjóðs af hverjum erlendum ferðamanni hafa lækkað talsvert í krónum talið síðustu ár. Á sama tíma hafa erlendir ferðamenn aldrei verið fleiri en nú um stundir, að því er fram kemur í svari Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. Það var Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi fjármálaráðherra, sem innti Bjarna eftir því hverjar tekjur ríkissjóðs eru af hverjum ferðamanni.

Fram kemur í svarinu að árið 2012 voru ferðamenn hér á landi 672.900 og var það tæplega 19% fjölgun á milli ára. Skattar á hvern ferðamann nam rétt rúmum 30.600 krónum en 31.800 krónum á hvern ferðamann ef miðað var við verðlag síðasta árs, þ.e. 2013. Það er sambærilegt og árið 2010 en aðeins minna en árið 2009. Til samanburðar námu skattar á hvern ferðamann 31.878 krónum árið 2002 en 59.046 krónum ef miðað er við verðlag ársins 2013.

Í skýringum í svarinu segir að ljóst sé að margir samverkandi þættir liggi að baki lækkuninni. Leiða megi að því sterkar líkur að mikil fjölgun ferðamanna feli í sér breytingar á samsetningu hópsins. Þá hafi gistimöguleikum fjölgað verulega, sérstaklega þeim í ódýrari kantinum, sem væntanlega eigi sinn þátt í að skapa grundvöll fyrir þeirri fjölgun ferðamanna sem orðið hefur. Því til viðbótar hafi í mars árið 2007 virðisaukaskattur á matvöru og veitinga- og gistiþjónustu lækkað úr 14% í 7%.