Lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor hefur lækkað lánshæfismat Kína úr A+ niður í AA- stuttu fyrir stórtækt skuldabréfaútboð kínverska ríkisins í Bandaríkjadölum, sem verður að teljast sjaldgæft. Matsfyrirtækið vísar til aukinnar hættu í kínversku efnahagslífi í kjölfar mikillar skuldsetningar. Um málið er fjallað í frétt Financial Times.

Í mati S&P kemur fram að tilraunir kínverskra stjórnvalda til að stjórna efnahagslífinu gæti róað öldurnar – en ekki nema til meðallangs tíma – og að í kjölfarið myndi efnahagsleg áhætta aukast, eftir um það bil tvö til þrjú ár. Lánshæfismat bæði Moody's og Fitch á Kína er AA- eins og sakir standa.

Þegar Moody's lækkaði lánshæfismat sitt á Kína síðastliðinn maí, gagnrýndu Kínverjar ákvörðunina og sögðu að að fyrirtækið hafi ofmetið vandamálin sem að kínverskur efnahagur stæði frammi fyrir og vanmætu „hæfni ríkisins til þess að dýpka umbætur“.

Matseinkunnir fyrirtækjanna hafa ekki ýkja mikil áhrif á Kína, en hafa heldur táknræn áhrif. Erlendir fjárfestar áttu 76 milljarða Bandaríkjadala í kínverskum ríkisskuldabréfum í lok ágúst. Kínverska fjármálaráðuneytið ráðgerir að selja um 2 milljarða dollara ríkisskuldabréf á næstu viku, sem verður fyrsta salan á ríkisskuldabréfum ríkisins í erlendri mynt frá árinu 2004. Að mati hollenska bankans ING gæti salan haft mjög neikvæð áhrif á kínverska skuldabréfamarkaðinn.