Festi hefur náð samkomulagi um sölu á Kjarvalsverslun sinni á Hellu. Salan er háð samþykki Samkeppniseftirlitsins (SKE). Þetta kemur fram í ársuppgjöri félagsins.

Í júlí 2018 gerði Festi sátt við SKE vegna samruna við N1. Í því fólst meðal annars að Festi bar að selja verslun Kjarvals á Hellu. Félagið náði samkomulagi við mögulegan kaupanda en ekkert varð af sölunni þar sem ráðstöfunin mætti andstöðu leigusala.

Til að bregðast við því reyndi Festi að selja Krónuverslun sem staðsett var á Hvolsvelli. Í febrúar á síðasta ári kom í ljós að hugur sveitarfélagsins stóð ekki til þess að hleypa Krónunni úr bæjarfélaginu og hafnaði það að framselja leigusamning um húsnæði verslunarinnar.

Staðan var því sú að í desember á síðasta ári hafði félaginu ekki tekist að selja verslun á umræddu svæði og hóf SKE af þeim sökum rannsókn á mögulegum brotum gegn skilyrðum sáttarinnar. Skömmu áður hafði Festi náð samningum við aðila um möguleg kaup á Kjarvalsversluninni.

Telja skilyrðum fullnægt

„Fyrir liggur að samningi Krónunnar ehf um verslunarrými á Suðurlandsvegi 1 hefur verið sagt upp og rennur út í lok apríl 2021. Fyrir liggur að Krónan ehf hefur selt rekstur Kjarvals til Sigurðar Elíasar Guðmundssonar [hótelstjóra og veitingamann] í Vík og óska forsvarsmenn Krónunnar eftir því að leigusamningur verði gerður til 10 ára við einkahlutafélag í eigu Sigurðar Elíasar.

Forsvarsmenn Samkaupa hafa lýst yfir áhuga á verslunarrekstri á Hellu og komu þeir Ómar Valdimarsson forstjóri Samkaupa og Gunnar E. Sigurðsson framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa inn á fundinn. Þeir kynntu starfsemi félagsins en þeir reka um 65 verslanir vítt og breitt um landið en velta Samkaupa er um 35 milljarðar kr. Þeir lýstu yfir áhuga á því að opna s.k. Kjörbúð á Hellu,“ segir í fundargerð stjórnar Suðurlandsvegar 1-3 hf. frá í nóvember á síðasta ári.

Á stjórnarfundi félagsins þann 11. janúar síðastliðinn mætti Finnur Oddsson, forstjóri Haga, á fundinn gegnum Zoom. Í fundargerð er fært að rætt hafi verið um „framtíð verslunarreksturs á Hellu og þau miklu tækifæri sem þar liggja“. Á sama fundi var samþykkt að fela formanni stjórnar að undirbúa nýjan leigusamning við einkahlutafélag Sigurðar Elíasar Guðmundssonar. Samningurinn var staðfestur á fundi stjórnar níu dögum síðar.

„Málið bíður nú samþykkis SKE en festi svaraði formlega fyrirspurnum þess í febrúar 2021. Ef salan verður samþykkt þá hefur öllum skilyrðum sáttarinnar verið fullnægt í samræmi við efni þeirra að mati félagsins,“ segir í ársreikningi Festi.